Fréttabréf Sjúkratrygginga View in browser 


Fylgiseðill

Fréttabréf Sjúkratrygginga

Nr. 1

Febrúar | 2024

Sjúklingar greiða minna

Nýr þjónustusamningur Sjúkratrygginga við sérgreinalækna tók gildi 1. september síðastliðinn og hafa síðan þá um 102 þúsund einstaklingar nýtt sér þjónustu þeirra. Þessir einstaklingar spöruðu sér nærri 1,3 milljarð króna í komugjöld á grundvelli hins nýja samnings.

Komugjöldin komu til vegna þess að ekki náðust samningar við sérgreinalækna frá því síðasti samningur rann út árið 2019. Þá hófu læknar að rukka slík gjöld til viðbótar við endurgreiðslur frá Sjúkratryggingum til að mæta kostnaði. Þau hafa nú verið aflögð þar sem í nýjum samningi felst veruleg breyting á gjaldskrá auk þess sem samningurinn þróast nú með verðlagi.

Það er ánægjulegt að sjá að nýr þjónustusamningur skilar sér í minni útgjöldum fyrir þá einstaklinga sem þurfa á þjónustunni að halda enda er það eitt meginhlutverk Sjúkratrygginga að tryggja aðgengi allra að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag. Í samningnum er einnig hvati til þess að læknar starfi saman í starfsheild, þ.e. á læknastofu, þar sem slíkt fyrirkomulag eykur gæði þeirrar þjónustu sem sjúklingar fá. Þetta hefur gefið góða raun og starfa nú um 95% þeirra lækna sem eiga aðild að samningnum í slíkri starfsheild.

Sjúkratryggingar leggja sig fram við að tryggja öllum jafnt aðgengi að bestu mögulegu heilbrigðisþjónustu hverju sinni og sjáum við að hinn nýi þjónustusamningur við sérgreinalækna skilar góðum árangri við að ná þeim markmiðum. Við hlökkum til að starfa áfram með sérgreinalæknum í þágu almennings á Íslandi.

Auknir fjármunir til sálfræðiþjónustu

Um árabil hefur verið í gildi rammasamningur við sjálfstætt starfandi sálfræðinga sem tryggir börnum með alvarlegar geð-, hegðunar- og þroskaraskanir sálfræðiþjónustu. Undir lok árs 2022 var samningurinn útvíkkaður þannig að fólk á öllum aldri gæti fengið kostnaðarþátttöku Sjúkratrygginga vegna meðferðar við kvíðaröskun eða þunglyndi af einhverjum toga. Þar með gefst bæði börnum og fullorðnum með vægt til meðal þynglyndi og kvíða tækifæri til að fá niðurgreidda þjónustu hjá sjálfstætt starfandi sálfræðingi. Um leið var fjárveiting til þessarar þjónustu aukin í 250 milljónir króna.

Þegar skoðaðar eru tölur fyrir árið sem var að líða kemur í ljós að aukning hefur orðið í fjölda þeirra sem nýta þjónustuna ár frá ári.

Hins vegar vekur eftirtekt að fjöldi sálfræðinga sem eiga aðild að samningnum hefur nánast staðið í stað og breyttist ekki við samninginn 2022 þrátt fyrir talsverða útvíkkun á þjónustu sem nú er tryggð af Sjúkratryggingum. Þá kemur í ljós að aðeins um 82 milljónir voru nýttar af 250 milljón króna fjárveitingu til málaflokksins á síðasta ári. Þannig standa eftir 168 milljónir sem ætlaðar voru til sálfræðiþjónustu sem ekki voru nýttar.

Samningurinn sem nú er í gildi, og sálfræðingum býðst að gerast aðilar að, gerir ráð fyrir að þjónustuþegar fái tilvísun frá lækni og bjóðist þá 10 skipti niðurgreidd af Sjúkratryggingum. Sem dæmi má nefna að fyrir 60 mínútna viðtal hjá sálfræðingi við kvíðaröskun eða þunglyndi af einhverjum toga (vægt og meðal) greiða Sjúkratryggingar kr. 19.875.

Jafnframt er áhugavert að setja þetta í samhengi við komur til geðlækna:

Tafla sýnir fjölda koma sem Sjúkratryggingar tóku þátt í kostnaði við.

Á liðnum árum hefur orðið mikil samfélagsleg vakning um mikilvægi andlegrar heilsu og hefur orðið nokkurt ákall eftir greiðara aðgengi að sálfræðiþjónustu. Það vekur því spurningar hvers vegna sú niðurgreiðsla sem í boði er nýtist ekki betur. Mögulegt er að starfandi sálfræðingar hafi nóg að gera án kostnaðarþátttöku hins opinbera eða að taxtarnir séu ekki í takt við gjaldskrá þeirra. Þá mætti ímynda sér að almenningur viti ekki nægilega vel af þessum réttindum sínum og sækist því ekki sérstaklega eftir að nýta þau.

Sjúkratryggingar


Þú færð þennan póst þar sem þú hefur skráð þig á póstlista hjá okkur.

Afskrá af Fylgiseðli